Vignettur

Armann Reynisson, im Katalog Peter Lang – Landkrabbi, Gleißenberg 2013 ISBN 978-3-943222-10-4

Miðnæturstemning

Nóttin virðist eilíf í tímaleysinu sem hellist yfir félagana meðan þeir skála og drekka perusnafs í Krossavík. Á aðra hönd gnæfir Snæfellsjökull og andar hægt og rólega meðan bláminn leikur sér á hvítu hjarninu. Fjallið virðist þenjast út eða dragast saman eftir takti andardráttsins. Útlínur þess skerpast smám saman og umvefja staðinn örmum sínum. Og hraunið sem faðmar rætur jökulsins dökknar og dökknar meðan mosinn inn á milli glóir í geislaflóði miðnætursólarinnar. Á heiðbláum himninum gnæfa í fjarska mikilfengleg bólgin ský sem leiktjöld væru í ótal myndum og fölbleikum litbrigðum. Þegar staupin eru fyllt á ný ,en fátt er talað, er horft í andstæða átt og þá sjást rauðleitar silkiveifur líða hjá sem bárur að landi á himinhvolfinu. Handan svarbláa fjarðarins, með óteljandi eyjar, þar sem hæglátar öldur rísa og hníga líkast kattaklóm, gægist tignarlegur fjallgarður Vestfjarða í breiðleitri sjónlínu. Milli fjallanna svífur röðullinn lágt á himni leikandi létt áður en hann tekur sér tak og rís aftur upp í hæstu hæðir endurnærður til leiks á ný. Um líkama vinanna flæðir náttúruleg orka umhverfisins og vínandinn örvar blóðrásina til muna. Allt sjónarspilið rennur saman í huga þeirra og geymist þar til frambúðar. Síðar eru listamennirnir knúðir af innri spennu með fiðring í fingrunum til að mála málverk á striga og rita myndlíkingu á blað.

Náttúrubarnið

Úti við ysta haf á Snæfellsnesi stendur nútímalegt víkingaskip á þurru landi, haganlega smíðað eftir kúnstarinnar reglum eins og klukkuverk væri. Þar er náttúruparadís sem er engri sinni lík hér á jörðu niðri og einn af átta orkumestu stöðum heims. Út frá annarri hliðinni sem er opin liggur dágóður pallur sem tjaldað er yfir og kamína vermir farkostinn eins langt og það nær. Fyrirbærið á að standa af sér snjókomu, veður og vind og það laðar að sér bæði menn og dýr á þessum afskekkta stað, fyrir forvitnissakir. Í höllinni ríkir konungur sem í eigin ríki væri og þar býr hann og vinnur að listsköpun sinni daginn út og daginn inn mánuðum saman með stuttum hléum til þess að hugsa sinn gang og njóta af gnægtabrunni landsins. Náttúrubarnið hefur lítinn tíma að halda sig til eða matreiða krásir en gott og hollt er að fá sér staup af snafsi þegar kul og trekkur sækir á. Lítill tími gefst til englasvefns því hugmyndirnar kalla kappann til leiks og orkan virðist óþrjótandi meðan á vertíðinni stendur. Að loknu ársverki með úttroðinn gám af listaverkum í mörgum stærðum og gerðum, er Peter Lang nær óþekkjanlegur vinum sínum. Því maðurinn er líkastur víking til forna, hárprúður mjög, með grásprengt skegg, og litaduft í flestum tóntegundum frá Doktor Georg Kremer skreytir andlitið og gullofnu herklæðin. En glampinn í augunum er sá hinn sami.

Peter Lang

Hin tignarlegu Alpafjöll laða og seiða hvern þann sem les í náttúruna og hughrifin blómstra síðan í hjartanu lífið á enda og fylgir sálunni út í eilífðina. Á síðari hluta tuttugustu aldar leikur stráksi nokkur sér um holt og hæðir í Bæjaralandi við rætur fjallgarðsins. Drengurinn vex og dafnar, er næmur á andlega og veraldlega vísu og tileinkar sér af kostgæfni flest sem vekur áhuga hans. Síðar liggur leið unga mannsins í Listaakademíu Munchenborgar og þar leggur nemandinn grunn að stórbrotnum listferli sínum. Peter Lang er meðalmaður á hæð og þéttur á velli, með dökkleitt yfirbragð og kemur til dyranna eins og hann er klæddur. Listamaðurinn er hrifnæmur með afbrigðum, opinn og einnig kátur og hefur sitt skap en stutt er í hláturinn. Persónan er frjáls eins og fuglinn sjálfur og fer óhindrað eigin leiðir en stendur styrk á sínum tveim fótum með hött á höfði og pípan er ekki langt undan. Líkami Peters er líkastur orkubolta og hugurinn gýs hugmyndum eins og Geysir sjálfur upp úr jörðinni. Og allur þessi kraftur er beislaður og taminn eins og íslenski hesturinn með sínar fimm gangtegundir. Spegilmynd sálarinnar er síðan fönguð á striga eða pappír á sinn persónulega og næma hátt svo að enginn sem til þekkir velkist í vafa um hver skapað hefur. Með listaverkum sínum opnar Peter augu listunnenda inn í djúpan og víðan náttúruheim þar sem kyrrðin og fegurðin ráða ríkjum og hollt er mannfólkinu að gleyma sér í um stund.

Í víking

Bæjaraland er umlukið löndum á alla vegu inni í hjarta Evrópu og eflaust má finna fólk sem aldrei sér sjó á lífsleiðinni. En það á ekki við um víking einn sem þar býr með eld í æðum og hugann á flugi er brýst út í listsköpun hvers konar. Hjá listamanninum eru heimahagarnir takmörkum settir fyrir hugmyndaflugið og sjórinn mikilfenglegi sem umlykur lönd og álfur heillar hann upp úr skónum. Ekki að ástæðulausu kviknar sú hugmynd hjá Bæverjanum að fá Florian Nagler vin sinn, mikilhæfan arkitekt, að teikna nútíma víkingaskip sem siglt getur hvert sem er í friðsömum tilgangi til þess að auðga andann hvar sem listamaðurinn kemur og fer. Hafist er handa og draumurinn rætist og útkoman er sérsmíðaður gámur úr ryðfríu stáli með öllu tilheyrandi svo hægt sé að lifa og starfa að listinni. Á öld tækni og tölva ferðast farkosturinn á járnbrautum, trukkum og flutningaskipum á tiltekinn áfangastað. Fyrst er hin fjarlæga Patagónia á dagskrá og ferðin heppnast eins og best verður á kosið. Það er ekki aftur snúið og á tólfta ári nýrrar aldar er stefnan sett á land miðnætursólarinnar, lands elds og ísa, til sjálfrar sögueyjunnar Íslands sem flýtur á miðju Atlantshafi í öllu sínu veldi. Og landið fagnar í byrjun júní góðum gesti frá Þýskalandi með einstakri veðurblíðu og sólin skín glaðhlakkaleg sólahringum saman sem aldrei fyrr á þessum árstíma.

Að fanga náttúruna á striga

Sjávarhljóðin berast að landi og renna síðan saman við fuglasöng og fjölbreyttan hljóm sem náttúran gefur stöðugt frá sér. Stjórnandi sinfóníuhljómsveitarinnar er veðráttan sjálf og fer efnisskráin, sem er óendanleg, eftir veðurfarinu hverju sinni og það sveiflast allt frá óperum Wagners til flautukonserta Mósarts. Við þessar aðstæður fæst Peter Lang við listsköpun í tjaldhöll sinni og vindurinn bærir eða slær á segldúkinn allt eftir skapbrigði sínu. Þegar hafist er handa með nýtt málverk er hugmyndin nokkurn vegin mótuð í huganum. Síðan er stærð strigans valin og litaflóran sem á hann er þakin. Hafist er handa og litadufti hrært saman, með oddmjóum spaða, við egg og vatn á glerplötu allt eftir kúnstarinnar reglum. Þegar listamaðurinn er ánægður með litinn velur hann breiðan og helst gamlan pensil og dýfir í blönduna. Síðan strýkur hann strigann, frá neðri hluta og upp á við, fram og til baka hægt, en ákveðið og þess á milli er litablöndunni breytt eftir smekk og útkoman verður bakgrunnur málverksins. Eftir að liturinn er þornaður er olía borin á sem límir síðan litarduftið í margskonar litbrigðum sem málað er með láréttum skotlínum upp og niður þvert yfir flötinn. Víkingurinn vinnur eins og berserkur tímunum saman og veit ekki fyrr en dagur er að kveldi kominn og nýtt listaverk tilbúið til að hrífa listunnendur sem kunna að njóta.

Heimferð

Eftir linnulausa glímu við hugmyndir sínar og listsköpun, veður og vinda, birtu og myrkur, svefn og vöku er Íslandsár víkingsins frá Bæjaralandi á enda runnið. Peter Lang pakkar veðurbarinn hafurtaski sínu saman, hátt í hundrað málverkum og öðru eins af teikningum. Síðan er knerrinum ýtt úr vör og siglt heim á leið með gersemarnar sem fangaðir hafa verið. Víkingaskipið fær góðan byr, siglir þöndum seglum og er komið til Bæjaralands færandi hendi öllum þeim sem vilja meðtaka boðskapinn. Hafist er handa með að opna lok kistunnar sem er yfirfull af gulli og dýrum steinum frá landi náttmyrkranna. Haldin er yfirgripsmikil listsýning í Regensburg og fjársjóðurinn sýndur sveitungum kappans frækna og síðar landsmönnum öllum sem vilja kynnast dulúð og auðlegð sögueyjunnar. Síðar berast listaverkin út fyrir landamæri Þýskalands og opinbera heimsbyggðinni sem og heimamönnum samspil náttúru og mannsanda. Með verkum sínum leggur listamaðurinn á þöglan máta fram sinn skerf til náttúruverndar. Í leiðinni opnar hann augu þeirra, sem vilja kafa dýpra en lífsgæðakapphlaup og glys samtímans bjóða upp á, fyrir þeim grundvelli sem er nauðsynlegur farsælli framtíð jarðarbúa um ókomna tíð.

Reykjavík 01.07.2012
Ármann Reynisson

Datenschutz |  Impressum